154. löggjafarþing — 104. fundur,  30. apr. 2024.

Staðan og aðgerðir í loftslagsmálum.

[14:39]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða hér um loftslagsmál og hvað er í gangi þar. Ég var í Færeyjum núna nýlega, á Norðurlandaráðsþingi. Þar fórum við og kynntum okkur orkumálin í Færeyjum. Við komumst að því að sveiflurnar í orkumálunum hjá þeim, bæði út frá vindmyllum og síðan sólarrafhlöðum, eru orðnar gífurlegar. Það er orðið mjög erfitt fyrir þá að stjórna því og þeir þurfa að brenna mikilli olíu. En þeir eru búnir að finna eina lausn. Þeir keyptu einhverja tugi, eða upp undir 100 rafhlöður. Þeir vita að þær endast bara í 20 ár en þeir eru búnir að hlaða þær og tölvukeyra þær og núna geta þeir haldið raforkukerfinu alveg stöðugu. Þeir hugsa í lausnum á sama tíma og við hér á Íslandi eigum ekki orku og brennum dísilolíu í fiskiðnaði vegna þess að við erum ekkert að virkja. Við erum líka farin að kvarta undan því að við höfum ekki heitt vatn af því að við erum ekki að bora.

Á sama tíma er hræsnin hjá okkur svo mikil að við erum tilbúin til að gera liggur við hvað sem er til að þykjast í loftslagsmálum. Nú á að fara að dæla niður við Straumsvík 75 milljónum lítra eða 2.500 lítrum á sekúndu af hreinu vatni sem á að blanda með ógeði frá Evrópu til að gera það nú örugglega súrt og flott. Þessu á að dæla niður. Við vorum að dæla 1.000 tonnum á Hellisheiði og það olli jarðskjálftum, en þarna ætlum við að dæla niður 250.000 tonnum á mánuði — ekki 1.000 tonnum heldur 250.000 tonnum á mánuði. Og við ætlum að nota til þess hreint vatn til þess að menga það. Þeir hafa meira að segja áhyggjur af því að það muni súrna og valda óbætanlegum skaða á lífríkinu. Við erum að gera þetta á Reykjanesi þar sem er eldvirkni.

En hvað ætlum við að gera í Krýsuvík? Jú, sama fyrirtæki ætlar að fara að gera þetta í Krýsuvík. Hvað dettur þeim þar í hug? Jú, þar ætla þeir að nota sjó. Bíddu, af hverju nota þeir sjó í Krýsuvík en hreint vatn í Straumsvík? Eigum við ekki að spyrja okkur hvað er í gangi þarna (Forseti hringir.) og athuga vel og vendilega hvers vegna hlutirnir eru svona?